Nokkur orð um mig
Ég heiti Lóa Björk Ólafsdóttir og er hjúkrunarfræðingur. Ég stunda mastersnám við Háskólann á Akureyri en námslínan snýr að áhrifum áfalla og langvinnrar streitu á taugakerfið, heilsu okkar og líðan. Á síðustu árum hefur komið fram sífellt meiri þekking á því hve stórt hlutverk heilinn og taugakerfið spila í þessu sambandi. Þessi fræði útskýra vel hvernig og af hverju tiltölulega einfaldar aðferðir geta virkað vel við að hjálpa okkur að upplifa meiri ró og gleði í lífinu. Upp úr þeirri þekkingu, meðal annars,varð námskeiðið "Heilinn og hamingjan" til.
Ég er Yoga nidra kennari og leiði tíma hjá Krabbameinsfélaginu þar sem ég starfa við ráðgjöf og stuðning fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Ég hef einnig starfað sem hópstjóri hjá Sorgarmiðstöð.
Í gegnum tíðina hafa andleg málefni, hugleiðsla og allt það sem við getum sjálf gert til að bæta líðan okkar og jafnvægi átt hug minn og hjarta. Sérstaklega hef ég áhuga á tengingunni við æðri mátt og ferðalaginu að hinum helgasta kjarna sem býr í sálum okkar allra.
